12.3.2008 | 11:56
Stuðningur frá blakmönnum
Ég fagna þessum hugmyndum um nýja íþróttasjónvarpsstöð enda er það orðið með öllu óþolandi hvernig fjölmiðlar á Íslandi matreiða fréttir ofan í landsmenn. Þar er örfáum útvöldum íþróttagreinum hampað á kostnað annarra og öfgarnar í umfjöllun eru ýmist í ökkla eða eyra. Í þessu samhengi má reyndar allt eins nefna dagblöð þar sem umfjöllun þeirra er einnig fádæma öfgafull og þar fer Morgunblaðið fremst í flokki. Þessi einsleita umfjöllun gerir yngriflokkastarf og heilbrigða uppbyggingu fjölbreytts íþróttalífs í landinu afar erfiða enda er börnum og unglingum talið trú um að það séu ekki nema kannski 3-4 íþróttagreinar sem vert sé að stunda - ég hugsa að flestir íþróttaáhugamenn gætu nefnt þessar greina sem mér eru í huga. Afleiðingar þessa tel ég vera gríðarmikið brottfall unglinga úr íþróttum - sérstaklega á aldrinum 14-18 ára - sem er einmitt aldurinn þegar unglingar fara að spá meira í fjölmiðla og umheiminn. Af hverju að vera æfa íþrótt sem er einskis metin ???
Þar sem ég þekki vel til í blakíþróttinni get ég lýst hvernig þessi mál horfa að mínu mati við þeirri grein.
Ég hef setið í stjórnum hjá Blakdeild KA í 20 ár og einnig sat ég í stjórn BLÍ í 2 ár og vann m.a. við innleiðingu á krakkablaki á Íslandi þannig að ég tel mig þekkja málið nokkuð vel enda hefur það verið stanslaus barátta að reyna að koma blakíþróttinni á framfæri í fjölmiðlum. Þar virðist engu skipta þó mikill uppgangur sé í blakíþróttinni á Íslandi eftir innleiðingu á krakkablaki 2003 þar sem ungum iðkendum í blaki hefur fjölgað um nær 400% á 5 árum. Einnig er mjög öflug öldungahreyfing í blakinu með um 1000 iðkendur sem er væntanlega fjölmennasta öldungahreyfing landsins kannski á eftir golfinu. Síðast en ekki síst er blak ein af fjölmennustu íþróttum í heimi með um 250 milljón iðkendur í 218 þjóðlöndum. Til gamans má nefna þar sem við KA menn vorum með rússneskan þjálfara fyrir 2 árum að í Rússlandi einu stunda 600.000 manns íþróttina og þar ef eru 25.000 atvinnumenn.
Þrátt fyrir þetta gengur mjög illa að koma íþróttinni í fjölmiðla. Nýjasta dæmið er nú í kring um bikarúrslitaleiki Blaksambandsins sem fara fram nú um næstu helgi. Þar hefur RÚV hefur ekki ennþá staðfest hvort sjóvarpstöðin ætlar að sýna úrslitaleikina beint. Þetta gerist þrátt fyrir að RÚV hafi sýnt bikarúrslitaleikina í blaki í beinni útsendingu nú nær samfellt á á annan áratug.
Annað dæmi er Morgunblaðið sem birtir ekki nema einstaka fréttir úr blakinu - helst af Íslands- og bikarmeisturum - og svo úrslit í tveimur línum í úrslitadálki blaðsins. Á sama tíma fá ákveðnar íþróttir kannski 2-4 síður í umfjöllun daglega. Þetta eru ótrúlegar öfgar og engan veginn réttlætanlegar að mínu mati. Þetta er auðvitað engin tilviljun heldur meðvituð ritstjórnarstefna blaðsins.
Það eru fjölmargar íþróttagreinar í svipaðri stöðu og blakið hvað fjölmiðlaumfjöllun varðar í landinu. Að mínu mati ættu þessar greinar að snúa bökum saman og brjóta af sér þessa einsleitu umfjöllun. Sjónvarpsstöð er metnaðarfull hugmynd en dýr hugmynd. Kannski mætti byrja á því að sérsamböndin sem finnst að sér vegið tækju sig saman og stofnuðu sameiginlega fréttavef. Sjónvarpstöð gæti svo fylgt í kjölfarið.
Sigurður Arnar Ólafsson
Höfundur er áhugamaður um íþróttir barna og unglinga
Ný íþróttasjónvarpsstöð stofnuð? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sigurður Arnar Ólafsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég ætlaði einmitt að stinga upp á þessu með fréttavefinn þegar ég las fréttina. Það held ég að væri mjög góð byrjun þó ekki væri nema til að sérsamböndin gætu gert sér grein fyrir hversu mikil vinna þetta er án þess að leggja í óhóflegan kostnað strax. Svo ef þetta reynist vera svo að það gangi upp má skella upp vefsjónvarpi á síðunni sem síðar meir gæti fært sig út í að vera sjónvarpsstöð. Mig grunar að margir geri sér ekki grein fyrir hversu umfangsmikið það getur verið að taka upp íþróttaviðburð svo vel sé. Hef sjálfur unnið svolítið í kringum bæði frjálsíþróttamót og skíðamót og því miður held ég að þeir sem stýra í a.m.k. þessum greinum skilji hreinlega ekki hversu stórt slíkt verkefni er. T.d. að mynda skíðamót gerir gríðarlegar kröfur til aðstöðu ef menn ætla að gera meira en að mynda með einni vél úti í brekku í góðu veðri en slíkt er ekki sjónvarpsvænt á nokkurn hátt nema sem örstutt innskot. Slíkt væri hins vegar hægt að nota í stuttum fréttaskotum á fréttavef. Á frjálsíþróttamótum fara fram margar greinar samtímis víðsvegar um svæðið og þá kemur upp krafan um fleiri vélar sem þýðir meiri búnaður og fleiri starfsmenn með kunnáttu og þá er þetta farið að verða dýrt. Blakið ætti að vera öllu viðráðanlegra þar sem það er bæði innanhúss og á tiltölulega litlum velli.
Gulli (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.